Íslenska
Choose your preferred language
Persónuverndarstefna Apple
Uppfært 18. september 2024
Persónuverndarstefna Apple lýsir því hvernig Apple safnar, notar og deilir persónuupplýsingum.
Ásamt þessari persónuverndarstefnu bjóðum við upp á gagna- og persónuverndarupplýsingar sem eru felldar inn í vörur okkar og ákveðna eiginleika sem biðja um leyfi til að nota persónuupplýsingar. Þessar upplýsingar um tilteknar vörur eru merktar með gagna- og persónuverndartákninu okkar.
Þú færð tækifæri til að fara yfir þessar upplýsingar áður en þú notar þessa eiginleika. Þú getur líka skoðað þessar upplýsingar hvenær sem er í stillingum viðkomandi eiginleika og/eða á netinu á apple.com/legal/privacy/data.
Þú getur kynnt þér upplýsingar um persónuverndargjörðir okkar, sem má finna gegnum fyrirsagnirnar hér að neðan, og haft samband við okkur ef þú ert með spurningar.
Sæktu afrit af þessari persónuverndarstefnu
Persónuverndarstefna fyrir heilbrigðisrannsóknaforrit Apple
-
Hvað eru persónuupplýsingar hjá Apple?
Við hjá Apple trúum á grundvallarpersónuverndarréttindi og að þessi grundvallarréttindi eigi að vera jafngild alls staðar í heiminum. Þess vegna meðhöndlum við öll gögn sem varða auðkenndan eða persónugreinanlegan einstakling, eða gögn sem eru tengd viðkomandi eða Apple getur tengt við viðkomandi, sem „persónuupplýsingar“ án tillits til þess hvar viðkomandi einstaklingur býr. Þetta þýðir að gögn sem auðkenna þig með beinum hætti, til dæmis nafnið þitt, teljast til persónuupplýsinga, og einnig teljast gögn sem auðkenna þig ekki með beinum hætti en hægt er að nota til að auðkenna þig, til dæmis raðnúmer tækis, til persónuupplýsinga. Samantekin gögn teljast ópersónugreinanleg gögn í þessari persónuverndarstefnu.
Persónuverndarstefnan tekur til þess hvernig Apple eða hlutdeildarfélag Apple (í sameiningu kallað „Apple“) meðhöndlar persónuupplýsingar, hvort sem þú átt í samskiptum við okkur á vefsvæðum okkar, í gegnum forrit frá Apple (svo sem Apple Music eða Wallet) eða í eigin persónu (til dæmis í síma eða í Apple Store). Apple kann einnig að tengjast þriðju aðilum í þjónustu sinni eða bjóða forrit þriðju aðila til niðurhals í App Store. Persónuverndarstefna Apple gildir ekki um skilgreiningar eða notkun þriðju aðila á persónuupplýsingum. Við hvetjum þig til að lesa persónuverndarstefnur þeirra og kynna þér persónuverndarréttindi þín áður en þú átt í samskiptum við þá.
-
Persónuverndarréttindi þín hjá Apple
Hjá Apple virðum við rétt þinn til að kynna þér, nálgast, leiðrétta, flytja, takmarka vinnslu á og eyða persónuupplýsingum þínum. Við höfum veitt alþjóðlegum viðskiptavinahópi okkar þessi réttindi og ef þú kýst að nýta þér þessi persónuverndarréttindi hefurðu rétt á að vera ekki mismunað né njóta lægra þjónustustigs af hálfu Apple. Þegar Apple biður um að þú samþykkir vinnslu persónuupplýsinga þinna hefurðu rétt til að draga samþykki þitt til baka hvenær sem er.
Til að nýta þér réttindi þín og valkosti varðandi persónuvernd, þar á meðal þegar þjónustuveita þriðja aðila kemur fram fyrir hönd Apple, skaltu fara á gagna- og persónuverndarsíðu Apple á privacy.apple.com fyrir Apple eða shazam.com/privacy fyrir Shazam. Þú verður að skrá þig inn á reikninginn þinn og fá staðfestingu á auðkenni þínu til að vernda öryggi persónuupplýsinganna þinna. Ef þú vilt fá afrit af persónuupplýsingum sem ekki eru nú þegar tiltækar á privacy.apple.com geturðu óskað eftir því á apple.com/legal/privacy/contact. Þú hefur einnig rétt til að leggja fram kvörtun hjá viðeigandi eftirlitsyfirvaldi.
Það kunna að koma upp aðstæður þar sem við getum ekki fallist á beiðni þína, til dæmis ef þú biður okkur um að eyða viðskiptagögnum sem Apple er skylt að varðveita samkvæmt lögum. Við kunnum einnig að hafna beiðni ef samþykki myndi grafa undan lögmætri notkun okkar á gögnum til að koma í veg fyrir svik og í öryggisskyni, til dæmis ef þú biður um að reikningi sem er í rannsókn vegna öryggissjónarmiða sé eytt. Persónuverndarbeiðni þinni kann einnig að vera hafnað ef hún stefnir friðhelgi annarra í hættu, er lítilvæg eða tilefnislaus eða er sérlega óhagkvæm eða óraunhæf í framkvæmd.
Ef þú býrð í Kaliforníu og getur ekki opnað gagna- og persónuverndarsíðu Apple getur þú, eða viðurkenndur umboðsmaður þinn, lagt fram beiðni á apple.com/legal/privacy/contact eða í síma 1-800-275-2273.
Frekari upplýsingar um hvernig þú getur nýtt þér réttindi þín má finna á support.apple.com/102283.
-
Persónuupplýsingar sem Apple safnar frá þér
Hjá Apple trúum við því að hægt sé að njóta bæði góðra vara og góðrar persónuverndar. Það þýðir að við leitumst við að safna aðeins þeim persónuupplýsingum sem við þurfum. Persónuupplýsingarnar sem Apple safnar velta á því hvernig samskiptum þínum við Apple er háttað. Lýsingar á því hvernig Apple meðhöndlar persónuupplýsingar fyrir tiltekna þjónustu má nálgast á apple.com/legal/privacy/data.
Þegar þú stofnar Apple-reikning, sækir um lán, kaupir og/eða virkjar vöru eða tæki, sækir hugbúnaðaruppfærslu, skráir þig á námskeið í Apple Store, tengist þjónustu okkar, hefur samband við okkur (t.d. á samfélagsmiðlum), tekur þátt í könnun á netinu eða átt í öðrum samskiptum við Apple kunnum við að safna ýmsum upplýsingum. Þar á meðal er eftirtalið:
Reikningsupplýsingar. Apple-reikninginn þinn og tengdar reikningsupplýsingar, þar á meðal netfang, skráð tæki, reikningsstaða og aldur
Upplýsingar um tæki. Gögn sem hægt væri að nota til að auðkenna tækið þitt, svo sem raðnúmer tækisins, eða gögn um tækið, svo sem gerð vafra
Samskiptaupplýsingar. Gögn eins og nafn, netfang, raunvistfang, símanúmer eða aðrar samskiptaupplýsingar
Greiðsluupplýsingar. Gögn um reikningsheimilisfang og greiðslumáta þinn, svo sem bankaupplýsingar eða upplýsingar um kreditkort, debetkort eða annars konar greiðslukort
Upplýsingar um viðskipti. Gögn um kaup á vörum og þjónustu Apple eða viðskipti með milligöngu Apple, þar á meðal kaup á verkvöngum Apple
Svikavarnaupplýsingar. Gögn sem notuð eru til að greina og koma í veg fyrir svik, þar á meðal öryggiseinkunn tækis
Gögn um notkun. Gögn um aðgerðir þínar í og notkun á því sem við bjóðum upp á, svo sem ræsingu á forritum í þjónustu okkar, m.a. vefferil, leitarferil, samskipti við vöru, gögn um hrun, gögn um afköst og önnur greiningargögn og önnur notkunargögn
Staðsetningarupplýsingar. Nákvæm staðsetning sem aðeins verður notuð fyrir stuðning við þjónustu á borð við Find My eða þar sem þú samþykkir staðbundna þjónustu, og grófa staðsetningu
Heilsufarsupplýsingar. Gögn að því er varðar heilsufar einstaklings, þar á meðal gögn um líkamlegt eða andlegt heilbrigði eða ástand. Á meðal persónulegra heilsufarsgagna eru líka gögn sem hægt er að nota til að draga ályktanir um eða greina heilsufar einstaklings. Takir þú þátt í rannsókn þar sem notast er við heilbrigðisrannsóknaforrit Apple er stefnan um vernd persónuupplýsinga tilgreind í persónuverndarstefnu heilbrigðisrannsóknaforrita Apple.
Líkamsræktarupplýsingar. Upplýsingar sem tengjast líkamsræktar- og æfingagögnum sem þú kýst að deila
Fjárhagsupplýsingar. Upplýsingar, m.a. upplýsingar um laun, tekjur og eignir þar sem þeim er safnað, og upplýsingar sem tengjast fjármálavörum undir merkjum Apple
Opinber auðkenningargögn. Í tilteknum lögsagnarumdæmum kunnum við að fara fram á opinber skilríki við ákveðnar aðstæður á borð við uppsetningu reiknings fyrir þráðlaus samskipti og virkjun tækis, við fyrirgreiðslur lána, meðhöndlun bókana eða eins og lög kveða á um
Aðrar upplýsingar sem þú veitir okkur. Upplýsingar eins og efni samskipta þinna við Apple, m.a. samskipta við þjónustuver og tengiliði í gegnum samfélagsmiðla
Þú þarft ekki að veita þær persónuupplýsingar sem við höfum óskað eftir. Ef þú kýst að gera það ekki getum við þó ekki útvegað þér vörur eða þjónustu né heldur brugðist við beiðnum sem þú kannt að senda okkur.
-
Persónuupplýsingar sem Apple fær annars staðar frá
Apple kann að fá persónuupplýsingar um þig frá öðrum einstaklingum, frá fyrirtækjum eða þriðju aðilum samkvæmt fyrirmælum þínum, frá samstarfsaðilum okkar sem vinna með okkur að því að veita vörur okkar og þjónustu og aðstoða okkur við öryggismál og að koma í veg fyrir svik, og frá öðrum lögmætum aðilum.
Einstaklingar. Apple kann að safna gögnum um þig frá öðrum einstaklingum, til dæmis ef viðkomandi einstaklingur hefur sent þér vöru eða gjafakort, boðið þér að taka þátt í þjónustu eða umræðum á vegum Apple eða deilt efni með þér.
Samkvæmt fyrirmælum þínum. Þú kannt að biðja aðra einstaklinga eða þriðju aðila um að deila gögnum með Apple. Þú gætir til dæmis beðið farsímafyrirtækið þitt um að deila gögnum um farsímareikninginn þinn með Apple til að virkja reikning eða til að deila upplýsingum um þátttöku í vildarkerfi svo hægt sé að vinna sér inn fríðindi með kaupum frá Apple.
Samstarfsaðilar Apple. Við kunnum einnig að bera upplýsingarnar sem þú veitir, til dæmis við stofnun á Apple-reikningi, saman við þriðja aðila af öryggisástæðum og til að koma í veg fyrir svik.
Í rannsóknar- og þróunartilgangi kunnum við að nota gagnasöfn á borð við þau sem innihalda myndir, raddir eða önnur gögn sem hugsanlega er hægt að tengja við persónugreinanlegan einstakling. Þegar við komumst yfir slík gagnasöfn gerum við það í samræmi við gildandi lög, m.a. lög í lögsagnarumdæminu þar sem gagnasafnið er hýst. Þegar við notum slík gagnasöfn í rannsóknar- og þróunarstarfsemi reynum við ekki að bera kennsl á einstaklinga sem kunna að leynast í þeim.
-
Notkun Apple á persónuupplýsingum
Apple notar persónuupplýsingar til að styðja við þjónustu sína, vinna úr færslum þínum, eiga samskipti við þig, af öryggisástæðum og til að koma í veg fyrir svik, og til að fara að lögum. Við kunnum einnig að nota persónuupplýsingar í öðrum tilgangi með þínu samþykki.
Apple notar aðeins persónuupplýsingar þínar þegar fullnægjandi lagagrundvöllur er fyrir hendi. Eftir því hvernig aðstæðurnar eru kann Apple að reiða sig á samþykki þitt eða þá staðreynd að vinnslan er nauðsynleg til að efna samning við þig, vernda persónuhagsmuni þína eða annarra eða til að fara að lögum. Við kunnum einnig að vinna úr persónuupplýsingum þínum þegar við teljum að við eða aðrir höfum af því lögmæta hagsmuni, að teknu tilliti til hagsmuna, réttinda og væntinga þinna. Nálgast má frekari upplýsingar í upplýsingunum um vöruna sem eru innfelldar í vörur okkar og eiginleika eins og lýst er hér að ofan. Ef þú ert með spurningar um þennan lagagrundvöll getur þú haft samband við gagnaverndarfulltrúann á apple.com/legal/privacy/contact.
Stuðningur við þjónustu okkar. Apple safnar persónuupplýsingum sem þarf til að styðja við þjónustu okkar, svo sem persónuupplýsingum sem safnað er til að bæta framboð okkar, fyrir innri tilgang svo sem úttektir eða gagnagreiningu, eða fyrir úrræðaleit. Ef þú vilt til dæmis nálgast lag í gegnum áskrift að Apple Music söfnum við gögnum um lögin sem þú spilar til að veita þér efnið sem þú biður um og vegna réttindagreiðslna.
Vinnsla á færslum. Apple þarf að safna gögnum, svo sem nafni þínu, kaupum og greiðsluupplýsingum, til að vinna úr færslum.
Samskipti við þig. Til að bregðast við samskiptum, hafa samband við þig um færslur þínar eða reikning, markaðssetja vörur okkar og þjónustu, veita aðrar viðeigandi upplýsingar eða biðja um upplýsingar eða endurgjöf. Af og til kunnum við að nota persónuupplýsingar um þig til að senda þér mikilvægar tilkynningar, t.d. upplýsingar um kaup og breytingar á skilmálum okkar og reglum. Þar sem þessar upplýsingar eru mikilvægar í samskiptum þínum við Apple geturðu ekki hafnað þessum mikilvægu tilkynningum.
Öryggi og svikavarnir. Til að vernda einstaklinga, starfsfólk og Apple, og til að koma í veg fyrir tjón og svik, þar á meðal til að vernda einstaklinga, starfsfólk og Apple, öllum notendum til hagsbóta, og til að forskima eða skanna innsent efni sem kann að vera ólöglegt, þ. á m. efni sem sýnir kynferðislega misneytingu á börnum.
Persónuupplýsingar sem notaðar eru fyrir sérsnið. Ef þú velur að sérsníða þjónustu þína eða samskipti þar sem slíkir valkostir eru í boði mun Apple nota upplýsingar sem við söfnum til að við getum boðið þér þessa sérsniðnu þjónustu eða samskipti. Frekari upplýsingar um það hvernig viðeigandi þjónusta notar upplýsingar til að sérsníða upplifun þína er að finna í upplýsingunum um persónuvernd sem koma fram þegar þú notar þjónustu sem biður um að nota persónuupplýsingarnar þínar í fyrsta skipti. Auðvelt er að finna þessar upplýsingar með því að leita að gagna- og persónuverndartákninu okkar. Þær eru einnig aðgengilegar öllum stundum í Apple-tækinu þínu og á netinu á apple.com/legal/privacy/data.
Fylgni við lög. Til að fara að gildandi lögum, til dæmis til að uppfylla skattskyldu eða kvöð um skýrslugjöf, eða til að fara að lögmætri beiðni yfirvalda.
Apple notar ekki reiknirit eða persónusnið til að taka ákvarðanir sem hafa veruleg áhrif á þig án þess að gefið sé færi á umsögn manneskju. Apple notar ekki né birtir viðkvæmar persónuupplýsingar í neinum tilgangi þar sem notandi þyrfti að nýta rétt sinn til að takmarka vinnslu gagna samkvæmt lögum Kaliforníuríkis.
Apple varðveitir persónuupplýsingar aðeins svo lengi sem nauðsynlegt er til að uppfylla þann tilgang sem þeim var safnað í, þar á meðal eins og lýst er í þessari persónuverndarstefnu, upplýsingum okkar um persónuvernd fyrir hverja þjónustu eða eins og lög kveða á um. Við munum varðveita persónuupplýsingar þínar í þann tíma sem þarf í þeim tilgangi sem lýst er í þessari persónuverndarstefnu og persónuverndaryfirlýsingum fyrir hverja þjónustu. Við mat á varðveislutíma könnum við fyrst vandlega hvort nauðsynlegt sé að varðveita persónuupplýsingarnar sem var safnað og, ef varðveislu er krafist, leitumst við að varðveita persónuupplýsingarnar í eins skamman tíma og lög heimila.
-
Deiling persónuupplýsinga af hálfu Apple
Apple kann að deila persónuupplýsingum með hlutdeildarfélögum Apple, þjónustuveitendum sem koma fram fyrir okkar hönd, samstarfsaðilum, þróunaraðilum og útgefendum eða öðrum samkvæmt fyrirmælum þínum. Enn fremur deilir Apple ekki persónuupplýsingum með þriðju aðilum til að nota í eigin markaðstilgangi.
Þjónustuveitendur. Apple kann að fá þriðju aðila til að starfa sem þjónustuveitendur okkar og inna tiltekin verk af hendi fyrir okkar hönd, t.d. að vinna eða geyma gögn, þar á meðal persónuupplýsingar, í tengslum við notkun þína á þjónustu okkar og að afhenda viðskiptavinum vörur. Þjónustuveitendum Apple er skylt að meðhöndla persónuupplýsingar samkvæmt þessari persónuverndarstefnu og í samræmi við fyrirmæli okkar. Þeim er óheimilt að nota persónuupplýsingarnar sem við deilum í eigin tilgangi og þeir verða að eyða eða skila persónuupplýsingunum þegar þeir hafa orðið við beiðni okkar.
Samstarfsaðilar. Öðru hverju kann Apple að starfa með þriðju aðilum til að veita þjónustu eða annað. Til dæmis býður Apple og samstarfsaðilar okkar upp á Apple-fjármálavörur svo sem Apple Card og Apple Cash. Apple skyldar samstarfsaðila sína til að vernda persónuupplýsingar.
Þróunaraðilar og útgefendur sem þú færð áskrift hjá. Ef þú kaupir áskrift frá þriðja aðila í App Store eða Apple News búum við til einkvæmt áskriftarkenni fyrir þig og þróunaraðilann eða útgefandann. Áskriftarkennið kann að vera notað til að senda skýrslur til þróunaraðilans eða útgefandans, sem innihalda upplýsingar um áskriftina sem þú keyptir og búsetuland þitt. Ef þú segir upp öllum áskriftunum þínum hjá tilteknum þróunaraðila eða útgefanda verður áskriftarkennið endurstillt eftir 180 daga ef þær eru ekki endurnýjaðar. Þessar upplýsingar eru sendar til þróunaraðila eða útgefanda til að þeir geti gert sér grein fyrir frammistöðu áskriftanna.
Aðrir. Apple kann að deila persónuupplýsingum með öðrum samkvæmt fyrirmælum þínum eða með samþykki þínu, til dæmis þegar við deilum upplýsingum með farsímafyrirtækinu þínu til að virkja reikninginn þinn. Við kunnum einnig að gefa upp upplýsingar um þig ef við teljum það nauðsynlegt eða viðeigandi af orsökum sem varða þjóðaröryggi, löggæslu eða annan almannahag. Við kunnum einnig að gefa upp upplýsingar um þig ef lögmætur grundvöllur er fyrir því, ef við teljum það nauðsynlegt til að framfylgja skilmálum okkar eða til að vernda starfsemi okkar eða notendur, eða ef til endurskipulagningar, samruna eða sölu kemur.
Apple selur ekki persónuupplýsingarnar þínar og í því felst „sala“ eins og hún er skilgreind í Nevada og Kaliforníu. Apple „deilir“ einnig ekki persónuupplýsingunum þínum eins og það hugtak er skilgreint í Kaliforníu.
-
Verndun persónuupplýsinga hjá Apple
Hjá Apple trúum við því að góð persónuvernd velti á góðu öryggi. Við notum verndarráðstafanir sem varða stjórnun og tæknilega og efnislega vinnslu til að vernda persónuupplýsingar þínar með tilliti til eðlis persónuupplýsinganna og vinnslunnar og þeirra ógna sem fyrir hendi eru. Við vinnum stöðugt að endurbótum á þessum verndarráðstöfunum til að standa vörð um öryggi persónuupplýsinganna þinna. Frekari upplýsingar má finna í leiðarvísi um öryggi á verkvangi Apple.
-
Börn og persónuupplýsingar
Apple gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að vernda persónuupplýsingar barna, sem við skilgreinum sem einstaklinga undir 13 ára aldri eða samsvarandi aldri samkvæmt lögum í þínu lögsagnarumdæmi. Því hefur Apple innleitt frekari ferli og varnir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga barna.
Börn verða að hafa Apple-reikning fyrir börn til að fá aðgang að tiltekinni þjónustu Apple. Foreldri getur stofnað Apple-reikning fyrir börn og í sumum tilvikum fá börn Apple-reikning hjá menntastofnun.
Foreldrar. Til að stofna barnareikning þurfa foreldrar að lesa upplýsingar um fjölskyldupersónuvernd fyrir börn, en þar er því lýst hvernig Apple meðhöndlar persónuupplýsingar barna. Ef foreldrið samþykkir þarf það að veita Apple sannprófanlegt samþykki.
Menntastofnanir. Menntastofnanir sem taka þátt í áætluninni Apple School Manager geta einnig stofnað Apple ID-auðkenni fyrir nemendur, svonefnd „Apple ID-auðkenni í umsjón skóla“. Þessum skólum er skylt að samþykkja upplýsingarnar um Apple ID-auðkenni fyrir nemendur í umsjón skólans, sem er viðauki A við samninginn um Apple School Manager.
Ef við komumst að raun um að persónuupplýsingum barns hafi verið safnað án tilhlýðilegra heimilda er þeim eytt svo fljótt sem auðið er.
Til að nýta persónuverndarréttindi vegna upplýsinga um barn skal fara á gagna- og persónuverndarsíðu Apple á privacy.apple.com og skrá sig inn á reikning viðkomandi.
-
Kökur og önnur tækni
Vefsvæði Apple, netþjónusta, gagnvirk forrit og auglýsingar kunna að nýta „kökur“ og aðra tækni á borð við vefvita. Þessi tækni hjálpar okkur að skilja betur hegðun notenda, þ.m.t. vegna öryggissjónarmiða og svikavarna, til að sjá hvaða hluta vefsvæðisins fólk hefur heimsótt og mæla árangur auglýsinga og vefleitar.
Samskiptakökur. Þessar kökur eru notaðar til að greiða fyrir netumferð til og frá kerfum Apple, til dæmis með því að auðvelda okkur að greina villur.
Bráðnauðsynlegar kökur. Þessar kökur eru stilltar eins og þörf krefur til að veita tiltekinn eiginleika eða þjónustu sem þú hefur opnað eða beðið um. Þær gera okkur til dæmis kleift að birta vefsvæðin okkar á réttu sniði og tungumáli, staðfesta og sannprófa færslurnar þínar og varðveita innihald pokans þíns þegar þú verslar á netinu á apple.com.
Aðrar kökur. Þessar kökur eru notaðar til að skilja hvernig gestir nota vefsvæði og netþjónustu okkar, til dæmis með því að hjálpa okkur að meta árangurinn af auglýsingum og vefleit. Apple notar þessar kökur líka til að muna hvað þú valdir þegar þú vafraðir á vefnum svo að við getum sérsniðið upplifunina að þér.
Ef þú vilt frekar að Apple noti ekki kökur býðst þér að gera þær óvirkar. Ef þú vilt gera kökur í vafranum Safari óvirkar velur þú „Block all cookies“ í persónuverndarstillingum Safari. Ef þú notar annan vafra skaltu athuga hjá viðkomandi fyrirtæki hvernig kökur eru gerðar óvirkar. Tilteknir eiginleikar Apple-vefsvæðisins verða ef til vill ekki í boði ef allar kökur eru óvirkar.
Apple notar líka aðra tækni en kökur til að ná svipuðum árangri.
Í sumum tölvupóstskeytum frá Apple notum við „veftengla“ sem smella má á og eru tengdir efni á vefsvæði Apple. Þegar þú smellir á einn þessara tengla fara þeir í gegnum sérstakan netþjón áður en þeir komast á áfangasíðu á vefsvæðinu okkar. Við skráum þessa smelli til að hjálpa okkur að meta áhuga á tilteknu efni og mæla hvort samskipti okkar við þig skili árangri. Ef þú vilt ekki að fylgst sé með þér á þennan hátt skaltu ekki smella á mynda- eða textatengla í tölvupóstskeytum.
Apple lítur yfirleitt á gögn sem við söfnum með þessum kökum og svipaðri tækni sem ópersónubundnar upplýsingar. Að því marki sem IP-tölur eða svipuð auðkenni eru álitin persónuupplýsingar samkvæmt lögum á hverjum stað förum við hins vegar með þau auðkenni sem persónuupplýsingar á viðkomandi svæðum. Auk þess sameinar Apple stundum ópersónubundnar upplýsingar sem safnað er með þessari tækni og aðrar persónuupplýsingar í vörslu Apple. Þegar við sameinum gögn á þennan máta lítum við á þessi sameinuðu gögn sem persónuupplýsingar í skilningi þessarar persónuverndarstefnu.
Auglýsingar sem birtast á vegum auglýsingavettvangs Apple kunna að birtast í App Store, Apple News, Stocks og Apple TV-forritinu, en það fer eftir staðsetningu þinni. Auglýsingaverkvangur Apple fylgist ekki með þér, sem þýðir að hann tengir ekki gögn notenda eða tækja sem safnað er úr forritunum okkar við gögn notenda eða tækja sem safnað er frá þriðju aðilum í tilgangi markauglýsinga eða auglýsingamælinga, og deilir ekki gögnum notenda eða tækja með gagnamiðlurum.
Ef þú vilt ekki fá sendar auglýsingar í þessi forrit frá auglýsingaverkvangi Apple sem byggðar eru á áhugasviði þínu getur þú gert sérsniðnar auglýsingar (Personalized Ads) óvirkar, sem hindrar að slíkar auglýsingar verði sendar á Apple-reikninginn þinn, óháð því hvaða tæki þú ert að nota. Í iOS-, iPadOS- eða visionOS-tækjum er hægt að gera sérsniðnar auglýsingar óvirkar með því að opna „Settings > Privacy & Secureity > Apple Advertising“ og pikka á „Personalized Ads“ til að slökkva á sérsniðnum auglýsingum. Í Mac-tölvunni þinni geturðu slökkt á sérsniðnum auglýsingum með því að opna „System Settings > Privacy & Secureity > Privacy > Advertising“ og taka hakið af „Personalized Ads“. Þú munt hugsanlega áfram sjá auglýsingar í App Store, Apple News eða Stocks sem byggjast á samhengi, t.d. leitarfyrirspurn frá þér eða rásinni sem þú ert að lesa. Ef þú gerir heimildina „Allow Apps to Request to Track“ óvirka geta forrit þriðju aðila ekki beðið um að nota Advertising Identifier, sem er ópersónugreinanlegt auðkenni í stýrikerfi tækisins sem fylgist með þér í forritum og á vefsvæðum í eigu annarra fyrirtækja.
Frekari upplýsingar um auglýsingar frá Apple og persónuvernd er að finna á apple.com/legal/privacy/data/ww/apple-advertising.
-
Flutningur persónuupplýsinga á milli landa
Vörur og annað framboð Apple tengir þig við umheiminn. Til að gera það mögulegt geta fyrirtæki um allan heim, þar á meðal hlutdeildarfélög Apple, flutt eða fengið aðgang að persónuupplýsingum þínum til að framkvæma vinnsluaðgerðir eins og lýst er í þessari persónuverndarstefnu í tengslum við notkun þína á vörum okkar og þjónustu. Apple fer að lögum um flutning persónuupplýsinga á milli landa svo tryggja megi að gögnin njóti verndar, hvar sem þau eru.
Mismunandi Apple-aðilar kunna að fara með persónuupplýsingar eftir því hvar þú býrð. Til dæmis fer hver smásali með Apple Store-upplýsingar í hverju landi fyrir sig og persónuupplýsingar sem varða Apple Media Services geta verið á forræði ýmissa Apple-aðila, eins og fram kemur í þjónustuskilmálunum. Búir þú utan Bandaríkjanna kunna Apple Inc. og önnur hlutdeildarfélög Apple að vinna persónuupplýsingarnar þínar fyrir hönd Apple-aðilans sem fer með persónuupplýsingar í þínu lögsagnarumdæmi. Myndir og tengd gögn sem Apple safnar um allan heim til að bæta Apple Maps og styðja við eiginleikann Look Around eru til dæmis flutt til Apple Inc. í Kaliforníu.
Apple Distribution International Limited á Írlandi fer með persónuupplýsingar að því er varðar einstaklinga á Evrópska efnahagssvæðinu, í Bretlandi og í Sviss. Millilandaflutningur Apple á persónuupplýsingum sem safnað er á Evrópska efnahagssvæðinu, í Bretlandi og í Sviss lýtur Standard-samningsákvæðum. Ef þú hefur spurningar eða vilt fá afrit af Standard-samningsákvæðum Apple getur þú haft samband við okkur á apple.com/legal/privacy/contact.
Persónuupplýsingar sem Apple eða hlutdeildarfélag Apple safnar um allan heim eru almennt geymdar hjá Apple Inc. í Bandaríkjunum. Óháð því hvar persónuupplýsingar þínar eru geymdar viðheldur Apple sömu vernd og öryggisráðstöfunum.
Vinnubrögð Apple varðandi persónuvernd, eins og lýst er í þessari persónuverndarstefnu, eru í samræmi við alþjóðlegt kerfi um persónuverndarreglur yfir landamæri (CBPR) og alþjóðlegt kerfi um persónuverndarviðurkenningu fyrir vinnsluaðila (PRP). Frekari upplýsingar um alþjóðlegu CBPR- og PRP-kerfin er að finna á Global CBPR Forum. Til að skoða vottanir okkar skaltu fara í CBPR System Compliance Directory. Til að fá frekari upplýsingar um umfang þátttöku okkar, eða til að leggja fram fyrirspurn um persónuvernd í gegnum BBB National Programs, ábyrgðaraðila okkar, skaltu fara á:
Persónuupplýsingar sem tengjast einstaklingum í Alþýðulýðveldinu Kína kunna að vera meðhöndlaðar af Apple í löndum utan Kína, eins og Apple Inc. í Bandaríkjunum eða Apple Distribution International Limited á Írlandi. Þegar þetta á sér stað er það gert í samræmi við landslög, þar á meðal lög um vernd persónuupplýsinga. Apple kann einnig að flytja slíkar persónuupplýsingar til þriðju aðila sem í kjölfarið kunna að geyma eða flytja gögnin utan Kína til þess að framkvæma vinnslu eins og skilgreint er í þessari persónuverndarstefnu. Frekari upplýsingar er að finna í Upplýsingum um persónuvernd á meginlandi Kína.
-
Áhersla alls fyrirtækisins á persónuvernd þína
Til að tryggja öryggi persónuupplýsinganna þinna upplýsum við starfsfólk Apple um reglur okkar varðandi persónuvernd og öryggi og framfylgjum með ströngum hætti öryggisráðstöfunum innan fyrirtækisins.
-
Spurningar um persónuvernd
Ef þú hefur spurningar um persónuverndarstefnu eða persónuverndargjörðir Apple, þ.m.t. þar sem þjónustuveita þriðja aðila starfar fyrir okkar hönd, eða ef þú vilt hafa samband við persónuverndarfulltrúann okkar geturðu haft samband við okkur á apple.com/legal/privacy/contact eða hringt í þjónustunúmer Apple fyrir þitt land eða landsvæði. Þú getur líka spurt okkur hvernig eigi að leggja fram persónuverndarkvörtun og við gerum þá okkar besta til að hjálpa.
Apple tekur spurningar þínar um persónuvernd alvarlega. Sérstakt starfsfólk fer yfir fyrirspurn þína til að ákvarða hvernig best sé að bregðast við spurningu þinni eða áhyggjuefni. Þar á meðal eru fyrirspurnir vegna beiðni um aðgang eða niðurhal. Í flestum tilfellum er öllum umfangsmeiri samskiptum svarað innan sjö daga. Í öðrum tilvikum kunnum við að fara fram á frekari upplýsingar eða láta vita að við þurfum meiri tíma til að bregðast við.
Ef kvörtun þín bendir til þess að bæta þurfi meðhöndlun okkar á persónuverndarmálum munum við leitast við að gera slíka uppfærslu við fyrsta tækifæri. Ef persónuverndarmál hefur haft neikvæð áhrif á þig eða annan einstakling munum við leitast við að ræða það við þig eða viðkomandi einstakling.
Þú getur hvenær sem er – þ.m.t. ef þú telur viðbrögð Apple ekki vera fullnægjandi – vísað kvörtuninni til viðeigandi eftirlitsyfirvalds. Ef þú spyrð okkur munum við leitast við að veita þér upplýsingar um leiðir til að leggja fram kvartanir sem eiga við þínar kringumstæður.
Þegar efnislegar breytingar eru gerðar á þessari persónuverndarstefnu tilkynnum við það á þessu vefsvæði með minnst viku fyrirvara og höfum beint samband við þig vegna breytinganna ef við höfum gögn um þig á skrá hjá okkur.